Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 385 . mál.


Sþ.

1202. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 vegna kjarasamninga í febrúar 1990.

Frá 2. minni hl. fjárveitinganefndar.



    Frumvarp til fjáraukalaga vegna kjarasamninga í febrúar sl. liggur nú fyrir til afgreiðslu. Það er flutt í þeim tilgangi að afla ríkisstjórninni heimilda til að breyta útgjöldum ríkissjóðs í fjárlögum þessa árs í framhaldi af niðurstöðum nýgerðra kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins annars vegar og ríkisins við BSRB hins vegar. Breytingar hafa orðið á verðlagsforsendum í kjölfar kjarasamninga frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Í athugasemdum við frumvarpið er sagt að heildaráhrif þessara breytinga feli í sér að gjöld umfram tekjur aukist á árinu um 645 m.kr. og nú séu horfur á að rekstrarhalli ríkissjóðs verði a.m.k. 4,3 milljarðar króna á þessu ári.
    Engar tilraunir eru hafðar uppi til sparnaðar í ríkisrekstri og ekki er hróflað við þeim fjármunum sem ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar hafa óskipta til ráðstöfunar í fjárlögum þessa árs en þeir nema hundruðum milljóna króna.
    Tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun útgjalda ríkissjóðs, sem fram koma í frumvarpinu, felast einkum í lækkun á framlögum til stofnframkvæmda og viðhalds á eignum ríkisins og lækkun á framlögum, m.a. til Byggingarsjóðs ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Þegar horft er til þess að verulegt atvinnuleysi er og ekki horfur að úr rætist hlýtur að orka tvímælis, svo ekki sé meira sagt, að skerða framlög Atvinnuleysistryggingasjóðs. Líkur eru á að slík ráðstöfun kosti ríkissjóð aukin útgjöld þegar líður á árið. Þessar tillögur ríkisstjórnarinnar munu ekki stuðla að því að sá fjöldi landsmanna, sem nú býr við atvinnuleysi, geti fengið vinnu. Þessar ráðstafanir munu auka atvinnuleysi í landinu enn frekar.
    Við afgreiðslu fjárveitinganefndar á frumvarpinu var leitað eftir ýmsum upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu. Leitað var sérstaklega eftir því við fulltrúa fjármálaráðuneytisins hvort í frumvarpinu væri gert ráð fyrir öllum þeim útgjöldum sem fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin höfðu tekið ákvörðun um. Í framhaldi af þeim upplýsingum, sem fram komu, hefur meiri hl. fjárveitinganefndar ákveðið að bæta við útgjöld ríkissjóðs 172 m.kr. Við þessa upplýsingasöfnun kom í ljós að framlög til Ríkisspítala voru vanáætluð í fjárlögum og er áætlað að um 200 m.kr. vanti til að halda rekstri Ríkisspítalanna óbreyttum frá fyrra ári. Má þá minna á að minni hl. benti á þessa vanáætlun við afgreiðslu fjárlaga og gagnrýndi að það væri ekki leiðrétt. Nú er gert ráð fyrir að auka framlag til Ríkisspítala um tæpar 150 m.kr. og ákveðið hefur verið að draga saman nokkra þætti í starfsemi þeirra, þar á meðal hjartaskurðlækningar, og fresta því að hefja glasafrjóvganir. Af þessu er ljóst að enn verður að sækja til annarra landa þá þjónustu sem Ríkisspítalar áformuðu að veita en er ekki fært vegna fjárskorts og mun það kosta ríkissjóð meira en áætlað er að spara hjá Ríkisspítölum. Þetta er eitt af mörgum dæmum um vafasama fjármálastjórn hjá núverandi ríkisstjórn.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að lækka útgjöld til Flugmálastjórnar um 20 m.kr. á sama tíma og vitað er að verulega fjármuni vantar til að halda rekstri stofnunarinnar óbreyttum á þessu ári. Þá kom einnig fram við umfjöllun nefndarinnar að áformað er að fresta til hausts ákvörðunum um ýmsa verulega útgjaldaþætti. Þessi og þvílík vinnubrögð gera ekkert annað en veikja tiltrú manna á fjárlagagerð og rýra fjárveitingavald Alþingis.
    Á þskj. 1207 eru breytingartillögur sem 2. minni hl. gerir við frumvarpið. Þar er lagt til að fallið verði frá að lækka framlög til Rannsóknasjóðs um 10 m.kr. og til Framkvæmdasjóðs aldraðra um 8 m.kr., eða alls um 18 m.kr. Til að mæta þessum auknu útgjöldum er lagt til að lækka fjárlagaliðinn Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum um sömu fjárhæð og í því sambandi lagt til að fjármálaráðherra nýti ekki heimild 6. gr. um viðbótarblaðakaup ríkisins.
    Hér er aðeins um lágmarksleiðréttingu á frumvarpinu að ræða að mati 2. minni hl. Verði þessar tillögur samþykktar mun 2. minni hl. ekki standa gegn afgreiðslu málsins en greiða atkvæði gegn því ella.
    Að lokum telur 2. minni hl. ástæðu til að vekja athygli á skýrslu frá OECD um horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar á árinu 1990. Þar er ekki gert ráð fyrir neinum hagvexti og spáð verulegu atvinnuleysi. Einnig er látið að því liggja að verðbólga sé of mikil miðað við önnur lönd OECD. Þá kemur fram í skýrslunni verulega hörð gagnrýni á efnahagsstjórn á Íslandi. Þessar niðurstöður skýrslunnar ganga þvert á yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og þær forsendur sem frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1990 byggist á.
    Af þessu má ráða að áður en árið er á enda verði ríkisstjórnin enn einu sinni að koma til Alþingis til að gera grein fyrir að halli ríkissjóðs verði enn meiri en nú er gert ráð fyrir.

Alþingi, 3. maí 1990.



Málmfríður Sigurðardóttir.